Huginn og Fjarðabyggð áfram

Tveir leikir fóru fram í 32ja liða úrslitum Visa bikars karla í gærkvöldi. Fjarðabyggð mætti Knattspyrnufélagi Eskifjarðar á malarvellinum á Neskaupsstað og Huginn tók á móti Leikni Fáskrúðsfirði á Seyðisfjarðarvelli. Mikið var skorað í báðum leikjum.

Fjarðabyggð sigraði Knattspyrnufélag Eskifjarðar á malarvellinum á Neskaupstað. Leikurinn fór 4-1 en því miður erum við ekki með markaskorara leiksins á hreinu, bætum úr því þegar þær upplýsingar koma í hús.

Huginn sigraði Leikni á Seyðisfjarðarvelli. Það var Andri Bergmann sem skoraði fyrsta markið á 11. mínútu, þá bætti Tómas Arnar við öðru rétt fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik, á 47. mínútu, setti Andri Bergmann sitt annað mark. Á 52. mínútu minnkaði dýrasti leikmaður Ísland, Almir Kosic, metin og staðan því 3-1. Stuttu seinna minnkaði þjálfari gestanna, Vilberg Jónasson, metin enn frekar og staðan því orðin 3-2 og leikurinn galopinn. Það var síðan Þórarinn Máni Borgþórsson sem gerði út um leikinn og skoraði glæsilegt mark af 25-30m færi, upp í þaknetið á 79. mín. Staðan 4-2 og þannig fóru leikar.

Það eru því Fjarðabyggð og Huginn sem fara áfram í næstu umferð. Fjarðabyggð mætir annað hvort Neista eða Boltafélagi Djúpavogs sem mætast í kvöld. Huginn mætir hins vegar Hetti sem sigraði Sindra 1-0.

 

Kaaber kaffihúsamót Þristar

Hið árlega Kaaber kaffihúsamót UMF Þristar var haldið á Skriðuklaustri á verkalýðsdaginn, 1. maí. Fimmtán keppendur mættu til leiks og voru tefldar sjö umferðir eftir Monradkerfi í opnum flokki en keppt var í tveimur flokkum, keppendur fæddir 1990 og seinna annars vegar og hins vegar flokkur fullorðinna.

Í flokki fullorðinna sigraði Sigurður Arnarson með 6 vinninga og var þetta í fjórða sinn sem hann hampar titlinum. Í öðru sæti varð Viðar Jónsson með 5 og 1/2 vinning og Sverrir Gestsson varð þriðji með 5 vinninga.

Í flokki yngri keppenda bar Bjarni Jens Kristinsson sigur úr býtum þriðja árið í röð en hann náði 4 vinningum. Í 2.-5. sæti urðu jafnir með þrjá vinninga Sigurður Max Jónsson, Ingimar Jóhannsson, Garðar Örn Garðarsson og Sigurður Árni Sigurbjörnsson og þurftu þeir að tefla innbyrðis um verðlaunasætin. Sigurður Max varð hlutskarpastur og hreppti annað sætið og Ingimar það þriðja. Aðeins ein stelpa tók þátt í mótinu, Emma Líf Jonsdóttir úr þriðja bekk Hallormsstaðaskóla.

Höttur sigrar Sindra

Höttur sigraði Sindra í fyrsta leik 32ja liða úrslitum Visa bikars karla á Sindravöllum, Hornafirði í gærkvöldi með einu marki gegn engu. Höttur er því komið áfram í næstu umferð bikarkeppninnar.

Það var hinn 15 ára gamli unglingalandsliðsmaður Högni Helgason sem skoraði eina mark leiksins á upphafsmínútunum aðeins gegn gangi leiksins. Eftir þetta fóru Hattarmenn að taka völdin a vellinum og gáfust nokkur færi á að bæta við mörkum en allt kom fyrir ekki. Síðari hálfleikurinn einkenndist af sterkri varnarvinnu og lítið var um færi og úrslitin því 0-1 gestunum í vil og þeir komnir áfram í Visa bikarnum. Höttur mætir svo annaðhvort Huginn eða Leikni sem mætast á morgun fimmtudag og verður leikurinn leikinn á Seyðisfirði. Einnig mætast Fjarðabyggð og Knattspyrnufélag Eskifjarðar í Fjarðabyggð. Á föstudag eru það svo Neisti og Boltafélag Norðfjarðar sem mætast á Djúpavogi.

Sambandsþingi lokið

Sambandsþing UÍA var haldið á laugardaginn 30. apríl s.l. Fámennt var en þó góðmennt, aðeins 16 fulltrúar af 127 löglegum mættu til þinghalds og er það eitthvað sem félögin þurfa að skoða. En þrátt fyrir dræma mætingu kom ýmislegt fróðlegt fram. Nokkrar tillögur fóru fyrir þing og voru allar samþykktar samhljóða. Það sem hæst ber að nefna er að meðlimum í aðalstjórn UÍA var fjölgað úr þremur í fimm. Sitjandi stjórn var endurkosin og inn í hana bættust Gunnar Gunnarsson frá Þristi og Bjarney Jónsdóttir frá Leikni. Þá var samþykkt að lækka félagsgjöld UÍA fyrir 18 ára og eldri úr 250 kr. á þáttakenda í 150 kr.
Tveir gestir heiðruðu þingið með nærveru sinni, þau Birgir Gunnlaugsson frá UMFÍ og Björg Blöndal frá ÍSÍ. Fluttu þau bæði ávarp og kynntu verkefni sinna félaga. Birgir veitti tveimur einstaklingum starfsmerki UMFÍ, þeim Benedikt Jóhannssyni frá Austra og Jónu Petru Magnúsdóttur frá Súlunni.
Þá voru kynnt tvö samstarfsverkefni sem UÍA tekur þátt í. Annars vegar samning við KHB og hins vegar samning við Alcoa. Bæði þessi verkefni fela í sér stuðning fyrirtækjanna við íþrótta- og æskulýðsstarf á Austurlandi og verða kynnt nánar síðar.

Íslandsmót í knattspyrnu hafið

Tvö lið að austan hófu keppni sína á Íslandsmótinu í knattspyrnu í gærdag. Fjarðabyggð tók á móti Stjörnunni á malarvellinum á Neskaupstað og Huginn sótti Aftureldingu heim og var leikurinn spilaður á Tungubökkum. Í kjölfarið hefst svo keppni í Visa bikar karla þar sem austan liðin eru að sjálfsögðu með. Einn leikur er í kvöld, tveir á fimmtudag og sá siðasti á föstudag. Við hvetjum fólk til að vera duglegt að mæta á völlinn og standa við bakið á sínu liði!

Í leiknum á Neskaupstað voru leikmenn Fjarðabyggðar fyrri til að skora og var þar að verki Grétar Örn Ómarsson sem setti boltann í stöng og inn eftir mistök í vörn Stjörnumanna. Það var svo í síðari hálfleik sem Stjarnan náði að jafna metin, og var það Goran Lukic sem það gerði eftir aukaspyrnu Dragoslav Stojanovic. 1-1 og þar við sat.

Á Tungubökkum voru það Huginsmenn sem komust yfir eftir um 20 mínútna leik þegar Andri Bergmann var felldur innan teigs af markamanni Aftureldingar. Hann tók vítið sjálfur og skoraði af miklu öryggi. Afturelding jafnaði metin skömmu seinna eftir hornspyrnu og var það Magnús Edvardsson sem skoraði með skalla. Á 52. mínútu komust Huginsmenn aftur yfir eftir slæm mistök í vörn Aftureldingar og var það Sveinbjörn Jónasson sem nýtti sér það og setti boltann framhjá markverði gestgjafanna. Fljótlega eftir þetta fékk Birkir Pálsson, fyrirliði Hugins, að líta rauða spjaldið eftir brot á Sævari Frey Alexanderssyni. Við þetta virtust leikmenn Hugins eflast og skömmu síðar skoraði Tómas Arnar Emilsson eftir góðan undirbúning Huginsmanna. Staðan orðin 1-3 og urðu það úrslit leiksins.

Í kvöld hefjast svo 32ja liða úrslit í Visa bikar karla þar sem Höttur heimsækir Sinda á Sindravelli á Hornafirði. Á fimmtudaginn tekur Huginn á móti Leikni á Seyðisfirði og Fjarðabyggð leikur við Knattspyrnufélag Eskifjarðar á Neskaupstað. Fyrstu umferðinni í Visa bikarnum lýkur svo hér fyrir austan á föstudaginn með leik Neista og Boltafélags Norðfjarðar á Djúpavogi.

 

Sambandsþing UÍA

Þann 30.apríl n.k. verður árlegt sambandsþing UÍA haldið á Hótel Framtíð, Djúpavogi og hefst það kl. 11:00. Þingboð hefur verið sent út til félaganna og vonumst við til að sjá sem allra flesta svo að þingið verði sem öflugast. Ýmis fróðleg umræðuefni eru á dagskrá s.s. væntanlegur samningur við KHB og dagskrá sumarsins. Einnig viljum við vekja athygli á því að lottotekjur eru greiddar út eftir mætingu hvers félags þannig að það borgar sig að mæta!

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok