Dregið í Visa bikar karla

Dregið var í 32ja liða úrslitum Visa bikars karla nú í hádeginu. Fjarðabyggð og Huginn voru í pottinum eftir sigra á liðunum hér Mynd - Hafliði Breiðfjörð - www.fotbolti.netfyrir austan. Fjarðabyggð sigraði Neista og Huginn vann Hött.

Fjarðabyggð fær efstu deildar lið Fram í heimsókn og Huginn leikur við 1. deildar lið KA á Seyðisfirði. Það er alveg ljóst að hér eru á ferðinni tvö mjög spennandi verkefni fyrir austan liðin tvö og stefnan hlýtur að vera sett á að stríða þessum stærri liðum. Það er mikilvægt að fólk fjölmenni á vellina sem aldrei fyrr þegar leikirnir fara fram 19. - 20. júní.
Hér fyrir neðan má sjá fulltrúa liðanna draga nöfn mótherjanna úr pottinum. Mikael Nikulásson leikamaður Hugins dró fyrir þá en Birkir Sveinsson dró fyrir Fjarðabyggð.

 

Mynd - Hafliði Breiðfjörð - www.fotbolti.net

 

 

Myndir: Hafliði Breiðfjörð - www.fotbolti.net

 

Leiknir 2 - Höttur 1

Leiknir tók á móti Hetti í fyrsta leik þeirra í 3. deildinni í ár á Fáskrúðsfirði. Þessi leikur átti að fara fram á Egilsstöðum á mánudag en var færður yfir á Fáskrúðsfjörð vegna vallaraðstæðna á Vilhjálmsvelli. Eins og lesa má á vef Hattar, www.hottur.tk, eru menn þar á bæ ekki parhrifnir af dómgæslu leiksins og telja að sínum mönnum hefði verið mismunað. Það er að sjálfsögðu ekki UÍA að dæma en það verður að segjast að sé þetta rétt er þetta hið versta mál.

Leiknismenn komust yfir strax á 3. mínútu. Þar var að verki Vilberg Jónasson, þjálfari Leiknism sem skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf. Síðan tveim mínútum seinna dæmdi dómari leiksins, Eysteinn Þór Kristinsson umdeilda vítaspyrnu og skoraði Almir Cosic úr henni af öryggi. Eftir þetta tók Höttur öll völd á vellinum og uppskáru vítaspyrnu á lokamínútu fyrri hálfleiks. Vilmar Freyr Sævarsson skoraði úr henni af miklu öryggi. Í seinni hálfleik voru Hattarmenn sterkari aðilinn en báru ekki árangur sem erfiði og lokatölur því 2-1.

Höttur sigrar Sindra

Höttur sigraði Sindra í fyrsta leik 32ja liða úrslitum Visa bikars karla á Sindravöllum, Hornafirði í gærkvöldi með einu marki gegn engu. Höttur er því komið áfram í næstu umferð bikarkeppninnar.

Það var hinn 15 ára gamli unglingalandsliðsmaður Högni Helgason sem skoraði eina mark leiksins á upphafsmínútunum aðeins gegn gangi leiksins. Eftir þetta fóru Hattarmenn að taka völdin a vellinum og gáfust nokkur færi á að bæta við mörkum en allt kom fyrir ekki. Síðari hálfleikurinn einkenndist af sterkri varnarvinnu og lítið var um færi og úrslitin því 0-1 gestunum í vil og þeir komnir áfram í Visa bikarnum. Höttur mætir svo annaðhvort Huginn eða Leikni sem mætast á morgun fimmtudag og verður leikurinn leikinn á Seyðisfirði. Einnig mætast Fjarðabyggð og Knattspyrnufélag Eskifjarðar í Fjarðabyggð. Á föstudag eru það svo Neisti og Boltafélag Norðfjarðar sem mætast á Djúpavogi.

Stórir sigrar í gærkvöld

Fjarðabyggð og Huginn unnu leiki sína í Visa bikar karla í gærkvöld. Fjarðabyggð sigraði Neista 7-0 á Eskifirði og Huginn sigraði Hött 5-1 á Egilsstöðum. Þessi lið eru því komin áfram og eiga því möguleika á að leika við lið úr efstu deild í næstu umferð Visa bikarsins.

Í leik Fjarðabyggðar og Neista skoraði Marjan Cekic fyrstu þrjú mörk Fjarðabyggðar á 3., 6. og 20. mínútu. Á 29. mínútu skoruðu Neista menn sjálfsmark og Goran Nikolic setti því næst mark á 61. mínútu. Það var síðan Grétar Örn Ómarsson sem skoraði síðustu tvö mörkin á 76. og 82. mínútu. Þar við sat og lokatölur 7-0.

Á Vilhjálmsvelli skoraði Kristján Guðberg Sveinsson fyrsta mark Hugins á 10. mínútu. Annað markið kom á 18. mínútu og þar var að verki Sveinbjörn Jónasson. Þá minnkaði Vilmar Freyr Sævarsson muninn fyrir Hött á 31. mínútu. Því næst setti Tómas Arnar Emilsson tvö mörk á 35. mínútu og 61. mínútu. Það var síðan Mikael Nikulásson sem rak síðasta smiðshöggið á sigur Hugins með marki á 62. mínútu, staðan 5-1.

 

Jafntefli á Seyðisfirði

Huginn og Tindastóll mættust í annarri umferð í 2. deild í gærkvöldi. Leikurinn fór fram á Seyðisfirði í skítakulda en þrátt fyrir það mætti fjöldi áhorfenda beggja liða og var stemningin skemmtileg. Leikurinn endaði þó með jafntefli.

Tindastólsmenn voru fyrri til að skora en það gerði Snorri Geir Snorrason á 30. mín eftir að hafa sloppið einn inn fyrir vörn heimamanna. Eftir það fór sókn Hugins að þyngjast og áttu þeir aldeilis færin til að klára leikinn, m.a. átti Tómas Arnar Emilsson skot í þverslá. Á 52. mínútu slapp Sveinbjörn Jónasson í gegnum vörn Tindastóls eftir skemmtilega sókn heimamanna og skoraði af miklu öryggi framhjá Gísla Eyland Sveinssyni, markamanni Tindastóls. Staðan 1-1 sem urðu lokatölur leiksins.

Huginn og Fjarðabyggð sitja því í 3.-4. sæti 2. deildar með 4 stig, Huginn með hagstæðara markahlutfall. Næsta umferð fer fram á laugardaginn 28. maí. Huginn fer á Selfoss og leikur við heimamenn en Fjarðabyggð tekur á móti Leiftri-Dalvík i Fjarðabyggð.

 

Íslandsmót í knattspyrnu hafið

Tvö lið að austan hófu keppni sína á Íslandsmótinu í knattspyrnu í gærdag. Fjarðabyggð tók á móti Stjörnunni á malarvellinum á Neskaupstað og Huginn sótti Aftureldingu heim og var leikurinn spilaður á Tungubökkum. Í kjölfarið hefst svo keppni í Visa bikar karla þar sem austan liðin eru að sjálfsögðu með. Einn leikur er í kvöld, tveir á fimmtudag og sá siðasti á föstudag. Við hvetjum fólk til að vera duglegt að mæta á völlinn og standa við bakið á sínu liði!

Í leiknum á Neskaupstað voru leikmenn Fjarðabyggðar fyrri til að skora og var þar að verki Grétar Örn Ómarsson sem setti boltann í stöng og inn eftir mistök í vörn Stjörnumanna. Það var svo í síðari hálfleik sem Stjarnan náði að jafna metin, og var það Goran Lukic sem það gerði eftir aukaspyrnu Dragoslav Stojanovic. 1-1 og þar við sat.

Á Tungubökkum voru það Huginsmenn sem komust yfir eftir um 20 mínútna leik þegar Andri Bergmann var felldur innan teigs af markamanni Aftureldingar. Hann tók vítið sjálfur og skoraði af miklu öryggi. Afturelding jafnaði metin skömmu seinna eftir hornspyrnu og var það Magnús Edvardsson sem skoraði með skalla. Á 52. mínútu komust Huginsmenn aftur yfir eftir slæm mistök í vörn Aftureldingar og var það Sveinbjörn Jónasson sem nýtti sér það og setti boltann framhjá markverði gestgjafanna. Fljótlega eftir þetta fékk Birkir Pálsson, fyrirliði Hugins, að líta rauða spjaldið eftir brot á Sævari Frey Alexanderssyni. Við þetta virtust leikmenn Hugins eflast og skömmu síðar skoraði Tómas Arnar Emilsson eftir góðan undirbúning Huginsmanna. Staðan orðin 1-3 og urðu það úrslit leiksins.

Í kvöld hefjast svo 32ja liða úrslit í Visa bikar karla þar sem Höttur heimsækir Sinda á Sindravelli á Hornafirði. Á fimmtudaginn tekur Huginn á móti Leikni á Seyðisfirði og Fjarðabyggð leikur við Knattspyrnufélag Eskifjarðar á Neskaupstað. Fyrstu umferðinni í Visa bikarnum lýkur svo hér fyrir austan á föstudaginn með leik Neista og Boltafélags Norðfjarðar á Djúpavogi.

 

Leikir helgarinnar

Höttur og Neisti unnu sína leiki, Fjarðabyggð gerði jafntefli og Huginn tapaði. Staða austan liðanna er samt sem áður ágæt og möguleikarnir fínir. Einnig var leikið í kvennaknattspyrnunni.

Höttur sigraði Snört 5-1 á Dúddavelli, Kópaskeri á laugardaginn. Hinn 15 ára gamli Högni Helgason skoraði 2 mörk fyrir Hött, Vilmar Freyr setti 1, Jóhann Örn 1 og Birgir Hákonarson 1. Bjarki Þór Kristinsson skoraði mark Snartar. Þetta er fyrsti sigur Hattarmanna síðan sumarið 2003 og vonandi að þetta sé til þess að rétta úr kútnum fyrir þá!
Neisti sigraði Boltafélag Húsavíkur á Djúpavogi 3-0 og var það Hallur Ásgeirsson sem skoraði öll mörk Neista. Þetta var annar leikurinn í röð sem Hallur setur þrennu.
Í 2. deild lék Fjarðabyggð við Leiftur/Dalvík í Fjarðabyggð. Jón Örvar Eiríksson kom gestunum yfir úr vítaspyrnu en undir lok leiksins náðu Fjarðabyggðarmenn að jafna þegar Leiftur/Dalvík skoraði sjálfsmark. Lokatölur 1-1.
Huginn sótti svo Selfoss heim í fyrsta heimaleik heimamanna. Fjölmenni var á vellinum eða um 350 manns, bæði Selfyssingar og Seyðfirðingar. Ingþór Jóhann Guðmundsson kom Selfoss yfir eftir um 38 mínutna leik en Huginn náði að jafna rétt fyrir lok fyrri hálfleiks og var Mikael Nikulásson þar að verki eftir hornspyrnu. Á 53. mínútu skoraði Ingþór Jóhann sitt annað mark og á 66. mínútu skoraði Lárus Arnar Guðmundsson þriðja mark heimamanna. Undir lok leiksins þyngdust sóknir Hugins og uppskáru þeir mark, Brynjar Gestsson skoraði með skalla á 88. mínútu. Lokatölur 3-2.
Þrír leikir fóru fram í 1. deild kvenna um heligna. Á föstudaginn tók Fjarðabyggð á móti Sindra á Eskifjarðarvelli. Sindri sigraði með þremur mörkum gegn einu. Á laugardaginn áttust Leiknir og Höttur við á Fáskrúðsfirði. Höttur sigraði 3-1 með tveimur mörkum frá Alexöndru Sveinsdóttur og einu marki frá Evu Ýr Óttarsdóttur. Mark Leiknis skoraði Una Sigríður Jónsdótir. Á sunnudag hélt Höttur svo til Akureyrar þar sem þær öttu kappi við sameiginlegt lið Þór/KA/KS. Leikar fóru 6-0 fyrir norðanstúlkur.

Huginn og Fjarðabyggð áfram

Tveir leikir fóru fram í 32ja liða úrslitum Visa bikars karla í gærkvöldi. Fjarðabyggð mætti Knattspyrnufélagi Eskifjarðar á malarvellinum á Neskaupsstað og Huginn tók á móti Leikni Fáskrúðsfirði á Seyðisfjarðarvelli. Mikið var skorað í báðum leikjum.

Fjarðabyggð sigraði Knattspyrnufélag Eskifjarðar á malarvellinum á Neskaupstað. Leikurinn fór 4-1 en því miður erum við ekki með markaskorara leiksins á hreinu, bætum úr því þegar þær upplýsingar koma í hús.

Huginn sigraði Leikni á Seyðisfjarðarvelli. Það var Andri Bergmann sem skoraði fyrsta markið á 11. mínútu, þá bætti Tómas Arnar við öðru rétt fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik, á 47. mínútu, setti Andri Bergmann sitt annað mark. Á 52. mínútu minnkaði dýrasti leikmaður Ísland, Almir Kosic, metin og staðan því 3-1. Stuttu seinna minnkaði þjálfari gestanna, Vilberg Jónasson, metin enn frekar og staðan því orðin 3-2 og leikurinn galopinn. Það var síðan Þórarinn Máni Borgþórsson sem gerði út um leikinn og skoraði glæsilegt mark af 25-30m færi, upp í þaknetið á 79. mín. Staðan 4-2 og þannig fóru leikar.

Það eru því Fjarðabyggð og Huginn sem fara áfram í næstu umferð. Fjarðabyggð mætir annað hvort Neista eða Boltafélagi Djúpavogs sem mætast í kvöld. Huginn mætir hins vegar Hetti sem sigraði Sindra 1-0.

 

Kaaber kaffihúsamót Þristar

Hið árlega Kaaber kaffihúsamót UMF Þristar var haldið á Skriðuklaustri á verkalýðsdaginn, 1. maí. Fimmtán keppendur mættu til leiks og voru tefldar sjö umferðir eftir Monradkerfi í opnum flokki en keppt var í tveimur flokkum, keppendur fæddir 1990 og seinna annars vegar og hins vegar flokkur fullorðinna.

Í flokki fullorðinna sigraði Sigurður Arnarson með 6 vinninga og var þetta í fjórða sinn sem hann hampar titlinum. Í öðru sæti varð Viðar Jónsson með 5 og 1/2 vinning og Sverrir Gestsson varð þriðji með 5 vinninga.

Í flokki yngri keppenda bar Bjarni Jens Kristinsson sigur úr býtum þriðja árið í röð en hann náði 4 vinningum. Í 2.-5. sæti urðu jafnir með þrjá vinninga Sigurður Max Jónsson, Ingimar Jóhannsson, Garðar Örn Garðarsson og Sigurður Árni Sigurbjörnsson og þurftu þeir að tefla innbyrðis um verðlaunasætin. Sigurður Max varð hlutskarpastur og hreppti annað sætið og Ingimar það þriðja. Aðeins ein stelpa tók þátt í mótinu, Emma Líf Jonsdóttir úr þriðja bekk Hallormsstaðaskóla.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok