Samningur UÍA og KHB rift

Það var sameiginleg ákvörðun UÍA og KHB að rifta samningnum varðandi búninga. Einungis eitt félag notfærði sér samninginn og þótti því ekki vera grundvöllur fyrir frekari samstarfi að svo stöddu. UÍA þakkar KHB samstarfið og vonast til að geta unnið að öðrum verkefnum með KHB í framtíðinni

Sunddagar á Eskifirði

Nýja sundlaugin á Eskifirði verður tekin formlega í notkun næstu helgi. Í tilefni þess verður sunddeild Austra með sunddaga en þeir standa yfir alla helgina þ.e.a.s. 19-21 maí. Ýmislegt verður í boði bæði fyrir almenning og einnig fyrir sund iðkendur á öllu austurlandi og ber þess að geta að landliðsþjálfarinn Brian Daniel verður með námskeið þessa daga. Einnig verður dómaranámskeið í sundi þessa sömu helgi og hvetur UÍA allar sunddeildir á Austurlandi að senda sína fulltrúa á það námsskeið. Dagskrá fyrir sunddaga á Eskifirði verður nánar auglýst síðar.

UÍA á Íþróttaþingi

Jóna Petra Magnúsdóttir, Gísli Sigurðarson, Jóhann Tryggvaon og Gunnar Gunnarsson voru fulltrúar UÍA á Íþróttaþingi sem fram fór á Grand Hótel í Reykjavík um seinustu helgi.

Helsta verkefni þingsins var að kjósa nýjan formann, en Ólafur Rafnsson vann kjörið og fékk 120 gegn 113 atkvæðum Sigríðar Jónsdóttur. Það var UÍA nokkurt áfall að Björg Blöndal, fyrrverandi Seyðfirðingur, missti sæti sitt í varastjórn ÍSÍ.
Annars gekk þingið næsta snurðulaust fyrir sig. Eitt fyrsta embættisverk nýs forseta var að fara þess á leit við Jóhann Tryggvason, formann UÍA, að hann flytti þingheimi nokkrar vísur til að stytta þeim stundir meðan beðið var eftir niðurstöðum kosningar til varastjórnar. Jóhann brást vel við erindinu og virtust fundarmenn hafa gaman að vísunum.

GG

Fundargerð formannafundar

Formannafundur UÍA var haldinn á Reyðarfirði 11. maí

 

Formannafundur UÍA, Reyðarfirði 11. maí 2006


1. Formaður UÍA, Jóhann Tryggvason, setti fundinn og byrjaði á að kynna starf UÍA að undanförnu. Búið er að úthluta 3 milljó. úr styrktarsjóðnum Spretti. Gerður var búningasamningur við KHB sem ekki hefur gengið nógu vel að uppfylla þar sem einungis eitt félag hefur nýtt sér samninginn. Sumarhátíðin seinasta ár var nokkuð hefðbundin og UÍA hélt Meistaramót Íslands í frjálsum fyrir FRÍ. UÍA hélt gangahlaup í samstarfi við Leikni og Val sem tókst mjög vel og þó hagnaðurinn hafi ekki verið neitt gríðarlegur urðu félögin mjög sýnileg á meðan mótið fór fram. Þing UMFÍ var haldið seinasta haust og ÍSÍ um seinustu mánaðarmót, fulltrúar UÍA sóttu þau þing. Unnið hefur verið að því að endurvekja starfsemi í ráðum og nefndum UÍA. Tvö Snæfell eru komin út frá seinasta þingi og það þriðja á leiðinni í lok maí. Jóhann ræddi um komandi verkefni, Sumarhátíð, Unglingalandsmót á Laugum, farandþjálfun í frjálsum, skil á starfsskýrslum, námskeiðahald með haustinu en langflest námskeið frá 2001 hafa fallið upp vegna ónógrar þátttöku, spennandi tímar í nýjum íþróttamannvirkjum í sveitarfélaginu, vinna í merkjum allra aðilarfélaga UÍA.

2. Fulltrúar félaga kynna og segja frá starfi síns félags

Jóna Petra Magnúsdóttir, form. Súlunnar Stfj., starfsemin þar aldrei verið jafn léleg og í ár, einungis fótboltaæfingar í vetur, í fyrra var leikjanámskeið, frjálsar og körfubolti. Ástæðan er þjálfaraskortur. Fernum safnað í vetur, þokkalegur tekjustofn, mögulega dagblöðum líka, selt ljósaperur og jólapappír og kort, jólabingó. Félagið hefur séð um 17. júní hátíðahöld.

Gunnar Gunnarsson, Þristi. Tvær æfingar á viku yfir vetrartímann, frjálsar og leikir, seinasta sumar frjálsar og fótbolti, lið í Malarvinnslubikarnum. Stutt við skák á Hallormsstað sem hefur gengið vel.

Helga Hrönn Melsteð, form. Hrafnkels Freysgoða, alltaf séð um 17. júní hátíðahöld á Breiðdalsvík, sent krakka á unglingalandsmót en æfingar illa sóttar en aðgengi að þjálfara er ágætt. Sér ekki fram á miklar æfingar í sumar frekar en seinasta sumar. Góðir styrkir frá Breiðdalshrepp, fín aðstaða. Óhefðbundið íþróttamót á Skriðuklaustri sem hluti af Ormsteiti.

Helgi Sigurðsson, form. Hattar, blak, fimleikar, frjálsar, skíðadeild, frjálsar, sund, og knattspyrna. Sunddeildin að byrja aftur, tæplega 30 iðkendur, 1.487 félagar skráðir. Starf í kringum félagið mikið og tímafrekt, endurnýjaður samningur við Fljótsdalshérað þar sem sveitafélagið viðurkennir þjónustuhlutverk félagsins, brenna. Fimleikadeild fyrirmyndarfélag, frjálsíþróttadeild í vinnu. Gengur vel að fá fólk í stjórn.

Pétur Gíslason, Golfklúbbi Fljótsdalshéraðs, seinasta sumar var ráðinn framkvæmdastjóri og þjálfari sem breytti ýmsu, stóð t.d. fyrir vel lukkuðu kvennagolfnámskeiði, barna- og unglingastarf endurvakið, fjöldi félagsmanna tæplega tvöfaldaðist á seinasta ári. Veltan í fyrra um 7 milljó., búið að ráða 6 starfsmenn í vinnu í sumar við golfvöllinn, að auki gerðar ráðstafanir varðandi unglingastarf. Gott samstarf golfklúbba við skipulagningu mótahalds.

Ásta Ásgeirsdóttir, Val Rfj.: Skíðadeild, sunddeild, glímudeild, fótbolti og frjálsar yfir sumarið, mjög vel sótt. Sjá um 17. júní, haldið leikjanámskeið á sumrin, fótboltaæfingar, búið að ráða þjálfara fyrir sumarið, glíman alls staðar, seldir hafa verið Valsgallar og ráðast á í vindgalla í vor, Valur átti fulltrúa á Landsmóti UMFÍ.

Steinn Jónasson, Leikni F.: Byrjaði á að gagnrýna starfsskýrsluvinnu, aðalfundur haldinn á eftir aðalfundi deildar á vorin, því félögin stelast hvort sem er til að vera sein. Samstarf í knattspyrnu með eldri flokka við félög í Fjarðabyggð, nauðsyn á samstarfi í frjálsum, stofnuð blakdeild um daginn, hvetur til aukinnar samvinnu félaga í framtíðinni.

Albert Jensson, form. Neista: Félagið ræður framkv.stjóra til að sjá um starfið. Æfingar á veturna í fótbolta, frjálsum, fimleikum og sundi.

Bergur Hallgrímsson, Freyfaxa, kynslóðaskipti í stjórn, nýtt hesthúsahverfi á Fljótsdalshéraði, æskulýðsstarf aldrei verið öflugra, reiðskóli í fyrsta skipti, reglulegir reiðtúrar, keppa undir UÍA í 3ja skipti í bikarmóti Norðurlands í ár, Ístölt Austurlands, sóttu um styrk til byggingar reiðhallar, áform um að flytja keppnissvæðið frá Stekkhólma í Fossgerði. Fagnar tilkomu Spretts. Gott samstarf Blæs og Freyfaxa.

Vilberg Einarsson, form. Blæs: Mikil fjölgun, 80 félagar í dag, góð þátttaka í mótum og útreiðum. Ýmsir viðburðir, krakkakvöld, myndbandskvöld, unglingadaga, hópreiðar, „skemmtikvöld“ á föstudögum. Félagshús og völlur á Kirkjubólseyrum. Ýmis námskeið og kynningar. Fjölskylduhelgi í fyrra. Ánægður með Sprett. Félagið hefur sótt um styrk fyrir reiðskemmu.

Björgúlfur Halldórsson, form. Þróttar N.: Fjórar deildir, blak, knattspyrna, sund og skíði, sundið dalaði eftir góð ár, blakið á uppleið eftir að hafa misst leikmenn, á ýmsu hefur gengið á skíðunum vegna snjóleysis, gott gengi þó í vetur, knattspyrnan stærsti pósturinn þrátt fyrir aðstæðuleysi sem er að rætast úr. Gott ástand á fjármálum.

Jóna Mekkín, knattspyrnu Austra á Eskifirði. 80-90 iðkendur í knattspyrnunni yfir sumarið, öflug frjálsíþróttadeild fyrir áramót, sunddeild gengur vel. Aðstaða slök. Styrkir frá fyrirtækjum gera félaginu kleift að gefa ungum knattspyrnumönnum peysur, buxur og sokka til að spila á gervigrasinu á sparkvellinum.

Umræður um starfsskýrsluskil og félagakerfið FELIX.

Einnig var rætt um búningasamninginn við KHB.

3. Yfirlit frá gjaldkera og framkvæmdastjóra

Gísli fór yfir fjármál og Sprett. Almenn ánægja með sjóðinn.

5. Skoðunarferð í nýja Fjarðabyggðarhöll

Gunnar ritaði fundargerð.

 

Formannafundurinn

Formannafundur aðildarfélaga UÍA var haldin í Grunnskólanum á Reyðarfirði fimmtudaginn 11.Maí. Mæting var ágæt miðað við oft áður og mættu aðilar frá tólf aðildarfélögum, en aðildarfélög að UÍA eru 33. Það bar ýmislegt á góma á þessum fundi og íþróttalíf greinilega í miklum uppgangi í flestum félögum. Framkvæmdir á íþróttamannvirkjum á Austurlandi voru meðal þess sem formenn ræddu en stórar framkvæmdir eru víða á íþróttamannvirkjum og þá sérstaklega í Fjarðarbyggð.

Meðal þess sem verið er að vinna að þessa dagana ber fyrst að nefna Fjarðarbyggðarhöllina, en það er knattspyrnuhöll sem verið er að reisa þar sem gamli völlurinn var. Stefnt er að því að vígja höllina 17. júní næstkomandi. Önnur stór verkefni sem verið er að vinna að eru gervigrasvöllur í fullri stærð í Neskaupsstað og ný sundlaug á Eskifirði, en vígsla hennar fer einmitt fram næstu helgi. Á fundinum ljóstraði Bergur formaður Freyfaxa því upp að félagið væri hugsanlega að ráðast í það metnaðarfulla verkefni að reisa reiðhöll hér austanlands. Það hljóta að vera gleðitíðindi fyrir hestamenn en þess ber að geta að iðkendum í reiðmennsku hefur fjölgað hér austanlands gríðarlega síðustu ár. Hestamannafélagið Blær er einnig stórhuga og eru þeir með áform um að reisa reiðskemmu í Neskaupsstað á næstu árum. Það er ljóst að uppgangur er í langflestum íþróttagreinum hér fyrir austan en þó ekki öllum. Mikil lægð hefur verið í frjálsíþróttum hér fyrir austan síðustu ár og lýstu menn áhyggjum sínum yfir því á fundinum. UÍA stefnir að því í samvinnu við félögin að breyta því, en hugmynd er að svokallaður farandþjálfari verði fenginn til að rífa frjálsíþróttastarfið upp. Að svo stöddu er þó óljóst hvernig nákvamlega verði að því staðið. Að loknum fundi héldu formenn félagana yfir í Fjarðarbyggðarhöll þar sem byggingarstjóri verkefnisins tók á móti þeim og fór yfir svæið með þeim.

MMÍ 12-14 ára

Við austfirðingar áttum fjóra keppendur á meistaramóti unglinga 12-14 ára sem fram fór í Laugardalshöll um síðustu helgi. Það voru þeir Egill Þórðarsson(Þristinum), Ingimar Jóhannsson(Þristinum), Brynjar Gauti Snorrasson(Hetti) og Bjarmi Hreinsson(Hetti). Þeir stóðu sig allir með miklum sóma og náðu góðum árangri. Egill var þó sá eini sem kom heim með verðlaunapening en hann varð í öðru sæti í kúluvarpi. En drengirnir stóðu sig vel eins og áður sagði og til að mynda komst Ingimar í úrslit í 60m hlaupi og Brynjar komst einnig í úrslit en það var í grindahlaupi. Einnig náðu þeir Ingimar og Brynjar góðum árangri í 800m hlaupi þar sem þeir voru örfáum sekúndubrotum frá verðlaunasæti.

Nánari úrslit má sjá hér að linknum fyrir neðan eða á fri.is

http://157.157.136.9/cgi-bin/ritarablod/urslitmot449.pdf

Fundargerð frjálsíþróttaráðs 29.5.2006

Frjálsíþróttaráð UÍA kom saman til fundar á skrifstofu UÍA 29. maí.

Fundur í frjálsíþróttaráði UÍA 29.5.2006 klukkan 17:00

Mætt: Gunnar, Gísli, Benný, Natalia, Helga, Jóna Petra.

1. Mót

Natalia minntist á þörfina á að vera með sameiginlegar æfingar og efla félagslega þáttinn hjá austfirsku frjálsíþróttafólki. Hugmynd um að vera með fleiri frjálsíþróttamót sem dreifast á milli staða. Spurning hvort hópnum eigi að skipta eftir greinum eða aldri. Mótin fari fram á fimmtudagskvöldum -> Fimmtudagleikar. Spurning með liða/heildarstigakeppni til að draga menn á milli staða, viðurkenningar fyrir einstaklinga sem mæta á öll mót.

Gísla falið að forma mótið.

2. Gautaborgarleikar

Ætlunin er að fara með níu krakka og fararstjóra frá UÍA á Gautaborgarleikana sem fram fara 5. – 12. júlí. Safna þarf styrkjum fyrir verkefnið. Natalia ætlar að halda utan um hópinn sem kemur vikulega saman, fyrsta æfing á laugardag.

3. Farandþjálfun

Gísli ætlar að móta æfingarnar og senda póst á öll félög sem fyrst svo hægt verði að koma þjálfuninni af stað. Nauðsynlegt að heimamaður aðstoði Gísla á hverjum stað með æfingar.

4. Sumarhátíð

Jóna Petra minntist á nauðsyn á úrbótum í starfsmannamálum sem bendir enn frekar á nauðsyn þess að halda dómaranámskeið í frjálsum á Austurlandi. Einnig skiptir máli að Gautaborgarleikar rekist ekki á við Sumarhátíð í framtíðinni. Vilji til að bjóða nágrönnunum, UFA og USÚ. Jóna Petra minntist á stefnu íþróttaforystunnar með að stærri félög hjálpi minni félögum. Gísli heyrir í Fríðu Rún.

Spurning um að skoða keppnisgreinar eldri keppenda, mögulega bjóða upp á þríþraut. Hugmynd um þrekraunakeppnina Orkuboltann. Nauðsyn að finna einhver leiktæki fyrir yngri börn og skemmtiatriði fyrir keppendur.

5. Unglingalandsmót

Fer fram á Laugum um verslunarmannahelgina. UÍA hvetur fólk og foreldra að mæta á mótið. Möguleiki á að hjálpa þeim áhugasömustu til þjálfunar fyrir landsmótið og mynda tengingu milli frjálsíþróttakeppenda og annarra keppenda UÍA eins og í skák og golfi. Það vantar líka lítið tjald fyrir UÍA á mótsstað.

6. Búningamál

Jóna Petra sagði nauðsyn að endurnýja frjálsíþróttabúninga UÍA. Þeir eru of fáir og margir ekki í réttri stærð.

7. Íslandsmót

Natalia sagði vanta mót til úrtöku fyrir Íslandsmeistaramót.

8. Næsti fundur

Gísla falið að boða næsta fund í lok júní.

Fundargerð ritaði Gunnar.

Fundi slitið 18:18

 

Formannafundur UÍA

Tilkynning um formannafund UÍA 2006.

Formannafundur UÍA 2006 verður haldin í Grunnskólanum á Reyðarfirði 11. maí næstkomandi. Fundurinn verður settur klukkan 18:30 og er áætlað að ljúka honum klukkan 21:00. Mikilvægt er að formenn eða fulltrúar þeirra mæti á fundin þar sem farið verður yfir íþróttamál á Austurlandi. Boðið verður uppá veitingar á fundinum og í lok fundar er áætlað að skoða nýtt knattspyrnuhús á Reyðarfirði. Vinsamlegast boðið komu ykkar í síma 471-1353 eða með því að senda póst á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 

Dagskrá fundar:

  • Formaður UÍA Jóhann Tryggvason setur fundinn
  • Fulltrúar félaga kynna sig og segja frá starfi síns félags
  • Yfirlit frá gjaldkera og framkvæmdastjóra
  • Viðburðir sumarsins og starfið framundan
  • Styrktarsjóðurinn Sprettur kynning og umræður
  • Útnefning á íþróttamanni UÍA 2005
  • Veitingar og umræður

Skoðunarferð

 

 

Gestir á MM UÍA

Eins og flestum er kunnugt um þá er meistaramót UÍA um helgina á Fáskrúðsfirði og hefst það klukkan 12:00 á laugardaginn. Við hvetjum alla þá sem ekki hafa nú þegar skráð keppendur sína gera það hið fyrsta. UÍA hefur boðið þeim Hornfirðingum(USÚ) að taka þátt og hafa þeir þáð það. Það er því ljóst að um hörkumót og keppni verður að ræða. Við hvetjum sem flesta til að mæta og gera sér glaðan dag á Fáskrúðsfirði.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok