Lög sambandsins

I. kafli Um sambandið

1. grein

Sambandið heitir Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands, skammstafað UÍA. Heimili sambandsins og varnarþing er þar sem skrifstofa þess er staðsett, hverju sinni.

2. grein

Starfssvæði sambandsins er Austurland frá og með Djúpavogshreppi í suðri að og með Vopnafjarðarhreppi í norðri.

3. grein

Merki sambandsins er hvítur skjöldur með bláum útlínum. Innan í skjöldinn næst útlínum eru mörkuð tvö hreindýrshorn, ljósbrún að lit. Milli hornanna er sporöskjulaga flötur og þar í úr sporöskjulöguðum skurði stafirnir UÍA í rauðum lit.

4. grein

Tilgangur sambandsins er að efla samhug og samvinnu íþrótta- og ungmennafélaganna á sambandssvæðinu og stuðla að fjölbreyttu íþrótta- og félagsmálastarfi þeirra í samræmi við lög UMFÍ og ÍSÍ. Ennfremur að vera sameiginlegur málsvari félaganna út á við.II. Kafli Um aðildarfélög

5. grein

Rétt til aðildar að sambandinu eiga þau ungmenna- og íþróttafélög sem starfa á sambandssvæðinu, enda séu lög þeirra í samræmi við lög UÍA, UMFÍ og ÍSÍ.

6. grein

Umsókn um inngöngu í UÍA skal senda til stjórnar sambandsins ásamt eintaki af lögum viðkomandi félags, félagaskrá og upplýsingum um skipan stjórnar. Félagið telst fullgildur aðili að sambandinu við samþykki stjórnar. Inngangan skal þó borin undir næsta ársþing til staðfestingar.

7. grein

Félag sem óskar þess að ganga úr sambandinu, sendi stjórn UÍA skriflega úrsögn enda hafi úrsögnin verið samþykkt á lögmætum aðalfundi félagsins. Úrsögnin tekur gildi þegar stjórn UÍA hefur samþykkt hana en þó skal staðfesta hana á næsta ársþingi. Ekki er skylt að taka úrsögn gilda, nema félagið sé skuldlaust við sambandið. Félag sem gengur úr sambandinu á ekki rétt til endurgjalds á fjármunum sem það hefur lagt til sambandsins eða nokkurs hluta af eignum þess.

8. grein

Hafi félag ekki skilað starfsskýrslum í tvö ár samfellt má stjórn UÍA gera tillögu til sambandsþings um að færa félagið á lista yfir óvirk aðildarfélög. Sé félag á lista yfir óvirk félög missir það allan rétt til greiðslna frá sambandinu og skal ekki tekið með við útreikning á slíkum greiðslum.

Hafi félag ekki skilað skýrslum til sambandsins í fjögur ár samfellt, má stjórn UÍA gera tillögu til sambandsþings um að víkja félaginu úr sambandinu. Ennfremur þeim félögum sem gerst hafa brotleg við lög þessi.

 

III. Kafli Um sambandsþing

9. grein

Æðsta vald UÍA er sambandsþing og skal halda það eigi síðar en í apríl ár hvert. Þó skal þess gætt að þingið beri ekki upp á sömu daga og þing eða formannafundir ÍSÍ og UMFÍ.

10. grein

Stjórn UÍA boðar til sambandsþings með tilkynningu með eigi minna en eins mánaðar fyrirvara. Fundarboð með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir sambandsþing skal senda aðildarfélögum, sérráðum og öðrum sem rétt eiga til þingsetu með eigi minna en viku fyrirvara. Heimilt er að senda slíkt fundarboð rafrænt til aðildarfélaga á netföng sem staðfest hafa verið við skrifstofu UÍA. Óski aðildarfélag eftir því í kjölfar tilkynningar að fá fundarboð sent bréflega skal orðið við því.

11. grein

Sambandsþing UÍA er fulltrúaþing og hefur hvert aðildarfélag rétt til að senda atkvæðisbæra fulltrúa á þingið miðað við fjölda skattskyldra félaga samkvæmt félagatali síðastliðsins starfsárs sem hér segir:

2 fulltrúa fyrir færri en 50 félagsmenn

3 fyrir 51-100 félagsmenn

og síðan einn fulltrúa fyrir hverja byrjaða 100 félagsmenn.

Stjórnarmenn og varastjórnarmenn í UÍA eiga sjálfkrafa atkvæðisrétt á sambandsþingi. Auk þess eiga seturétt á þinginu með málfrelsi og tillögurétt, fulltrúar í sérráðum UÍA, aðrir sem kjörnir eru í trúnaðarstöður hjá sambandinu og þeir aðrir sem stjórn UÍA býður til þings.

12. grein

Á sambandsþingi skal taka til umræðu og afgreiðslu skýrslu stjórnar og sérráða, fjárhagsáætlun komandi árs, árgjöld aðildarfélaga, löglega fram komnar lagabreytingatillögur og ársreikninga. Reikningsár UÍA er almanaksárið. Þá skal á sambandsþingi ákveða staðsetningu næsta sambandsþings.

13. grein

Stjórn getur gert tillögur til breytinga á lögum sambandsins og skal senda slíkar tillögur út með skriflegu fundarboði eigi minna en viku fyrir sambandsþing. Vilji aðrir gera tillögur til breytinga á lögum sambandsins skal skila þeim tillögum til stjórnar eigi minna en þremur vikum fyrir þingið. Komi fram slík tillaga er stjórn skylt að senda hana út með skriflegu fundarboði svo sem að ofan greinir og skal hún tekin til afgreiðslu á sambandsþingi.

14. grein

Á sambandsþingi skal kjósa í eftirfarandi embætti:

Formann

Fjóra aðalmenn í stjórn

Þrjá varamenn í stjórn

Tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara

Önnur trúnaðarstörf eftir ákvörðun þingsins

 

IV. kafli Um stjórn

15. grein

Sambandsstjórn skipa formaður, fjórir aðalmenn og þrír varamenn kjörnir á sambandsþingi. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar skulu aðalmenn velja úr sínum röðum einn til að gegna embætti ritara, sem jafnframt er varaformaður og annan til að gegna embætti gjaldkera.

16. grein

Sambandsstjórn tekur ákvarðanir um almennan rekstur sambandsins. Stjórnin skal halda gerðabækur yfir alla fundi sína og taka saman skýrslur um starfsemi sína til kynningar á sambandsþingum og formannafundum.

17. grein

Sambandsstjórn setur reglur um heiðursviðurkenningar sambandsins svo sem starfsmerki, heiðursfélaga og annað sem ástæða þykir til.

V kafli Um sérgreinaráð

18. grein

Innan UÍA skulu starfa sérgreinaráð. Sambandsþing skilgreinir sérgreinaráð, ákveður hvaða ráð skulu starfa milli þinga, segir fyrir um skipan þeirra og setur þeim almennar reglur. Þó skal stjórn einnig heimilt að skipa sérgreinaráð ef ástæða er til.

19. grein

Sérgreinaráð skulu almennt skipuð formönnum aðildarfélaga eða deilda innan aðildarfélaga sem sinna viðkomandi grein, eða fulltrúum þeirra. Sérráðin skipa sjálf með sér verkum og tilnefna formann. Sambandsstjórn staðfestir skipan formanna sérráða.

20. grein

Sérgreinaráð skulu annast skipulag mótahalds og viðburða í hlutaðeigandi íþróttagreinum. Sérgreinaráð gerir tillögur að reglum um mótahald og aðra starfsemi og staðfestir sambandsstjórn þær. Að fengum upplýsingum frá sérráðum skal sambandsstjórn semja sameiginlega mótaskrá sem nær til allrar starfsemi á vegum sambandsins og annast birtingu hennar á almennum vettvangi. Sérgreinaráð skulu sjá til þess að mótshaldarar á vegum þeirra komi upplýsingum um mót og úrslit til skrifstofu sambandsins svo fljótt sem verða má.

 

VII Kafli Önnur ákvæði

21. grein

Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands verður ekki slitið nema 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa sem seturétt eiga á ársþingi séu því samþykkir. Með slíkri samþykkt lýkur þingið störfum, en sú stjórn sem síðast sat skal sitja áfram og boða til annars ársþings sex mánuðum síðar og verði þá aftur samþykkt með 4/5 atkvæða að slíta sambandinu skulu það teljast lögleg sambandsslit.

22. grein

Ef sambandið leysist upp eða hættir störfum skulu allar eignir þess renna í einn sjóð sem verði í vörslu UMFÍ, en þó ávaxtaður í peningastofnum á sambandssvæðinu. Höfuðstól sjóðsins má eigi skerða en ráðstafa 2/3 ársávöxtunar til íþrótta- og æskulýðsstarfs á sambandssvæði UÍA. Verði nýtt samband stofnað sem stefnir að sömu markmiðum og UÍA á sambandssvæðinu skulu eignir UÍA renna til þess.

23. grein

Við atkvæðagreiðslu almennra mála og í kosningum samkvæmt lögum þessum ráði einfaldur meirihluti atkvæða viðstaddra atkvæðisbærra fulltrúa en til lagabreytinga þarf 2/3 hluta sömu fulltrúa.

Ákvæði til bráðabirgða

Lög þessi eru samþykkt á 60. sambandsþingi UÍA 4. apríl 2009 og taka þegar gildi. Við samþykkt þeirra falla niður öll eldri lög UÍA.

Breytt á 61. sambandsþingi UÍA 14. apríl 2013.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok