Álkarlinn: Svakalega spennandi verkefni!

Nú er nýtt verkefni komið á koppinn hjá UÍA í samstarfi við Alcoa Fjarðarál. Álkarlinn er austfirsk þriggja þrauta keppni sem samanstendur af þátttöku í þremur ólíkum austfirskum keppnum, Urriðavatnssundi, Barðsneshlaupi og Tour de Ormi. Allar eiga þessar keppnir sameiginlegt að vera krefjandi og fara fram í mikilfenglegri austfirskri náttúru. Nafngift keppninnar er annarsvegar skýrskotun í aðalstyrktaraðila hennar, Alcoa Fjarðarál, og hinsvegar í hina víðfrægu þríþraut Járnkarlinn (e.iron man). Þó yfirheiti keppninar sé Álkarlinn þarf vart að taka fram að konur eru að sjálfsögðu hluti af keppendum.

Þrautirnar sem Álkarlar þreyta eru:

  1. Urriðavatnssund sem fram fer 25. júlí n.k. í Urriðavatni á Fljótsdalshéraði.
    Keppendur í Álkarlinum synda 2,5 km.

  2. Barðsneshlaup sem fram fer 1. ágúst n.k. á Norðfirði.
    Keppendur í Álkarlinum hlaupa 27 km utanvegaleið.

  3. Tour de Ormurinn sem fram fer 15. ágúst n.k. á Fljótsdalshéraði og í Fljótsdalshreppi.
    Keppendur í Álkarlinum hjóla 103 km leið umhverfis Lagarfljót.

Þeir sem klára þrautirnar þrjár á einu og sama sumrinu hljóta viðurkenningargrip og sæmdarheitið Álkarl eða Álkona.

Einnig verður boðið upp á Hálfkarl en þar synda þátttakendur 1.250 m í Urriðavatnssundi, hlaupa 13 km í Hellisfjarðarhlaupi (sem er hluti af Barðsneshlaupi) og hjóla 68 km í Tour de Orminum. Þeim er veittur viðurkenningargripur og sæmdarheitið Hálfkarl eða Hálfkona.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ