Jósef Auðunn Friðriksson: Kveðja frá UÍA

Við hjá UÍA minnumst nú Jósefs Auðuns Friðrikssonar, stjórnarmanns í sambandinu til átta ára, góðs vinar og mikils ungmennafélaga sem því miður var kallaður frá okkur alltof snemma.

Jósef Auðunn kom fyrst inn í stjórn UÍA árið 2011 með meðstjórnandi og sat í henni fram til ársins 2019 sem gjaldkeri. Það fór ekki endilega mikið fyrir Jósef en hann var vel inni í málum víða enda kom að félagsmálum víðar en hjá UÍA. Þannig mátti stundum heyra frá honum tíðindi frá ungmennastarfi knattspyrnunnar í Fjarðabyggð, Framsóknarflokknum, hans heimafélagi Súlunni og kirkjukórnum á Stöðvarfirði, en þess var vandlega gætt að stjórnarfundir rækjust ekki á við kóræfingar. Honum þótti vænt um sína heimabyggð og þjónaði henni vel.

Jósef var traustur og góður samstarfsmaður, hélt sínu striki og vann sína vinnu af kostgæfni sem er nauðsynlegt fyrir gjaldkerann. Hann var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda, öflugur liðsmaður. Hann fylgdi vel eftir sínum málum, meðal annars varðandi ferðakostnað hreyfingarinnar og var rökfastur. Jósef leyndi líka á sér, góðan tíma tók okkur að trúa sögu hans um að hann hefði verið hljómborðsleikari í Skriðjöklunum.

Á tímabili voru stjórnarfundir gjarnan haldnir á Stöðvarfirði, sem þá var nokkuð miðsvæðis fyrir stjórnarfólk. Þá var Jósef gestgjafinn, ýmist í grunnskólanum eða á Brekkunni þegar borðað var um leið.

Jósef Auðunn hafði mikil áhrif á austfirskt ungmennafélagsstarf og verður sárt saknað. Hugur okkar er hjá konu hans, Sólveigu og fjölskyldu.

Með kveðju

Samstarfsfólk hjá UÍA

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok