Kaaber kaffihúsamót Þristar

Hið árlega Kaaber kaffihúsamót UMF Þristar var haldið á Skriðuklaustri á verkalýðsdaginn, 1. maí. Fimmtán keppendur mættu til leiks og voru tefldar sjö umferðir eftir Monradkerfi í opnum flokki en keppt var í tveimur flokkum, keppendur fæddir 1990 og seinna annars vegar og hins vegar flokkur fullorðinna.

Í flokki fullorðinna sigraði Sigurður Arnarson með 6 vinninga og var þetta í fjórða sinn sem hann hampar titlinum. Í öðru sæti varð Viðar Jónsson með 5 og 1/2 vinning og Sverrir Gestsson varð þriðji með 5 vinninga.

Í flokki yngri keppenda bar Bjarni Jens Kristinsson sigur úr býtum þriðja árið í röð en hann náði 4 vinningum. Í 2.-5. sæti urðu jafnir með þrjá vinninga Sigurður Max Jónsson, Ingimar Jóhannsson, Garðar Örn Garðarsson og Sigurður Árni Sigurbjörnsson og þurftu þeir að tefla innbyrðis um verðlaunasætin. Sigurður Max varð hlutskarpastur og hreppti annað sætið og Ingimar það þriðja. Aðeins ein stelpa tók þátt í mótinu, Emma Líf Jonsdóttir úr þriðja bekk Hallormsstaðaskóla.

Sambandsþingi lokið

Sambandsþing UÍA var haldið á laugardaginn 30. apríl s.l. Fámennt var en þó góðmennt, aðeins 16 fulltrúar af 127 löglegum mættu til þinghalds og er það eitthvað sem félögin þurfa að skoða. En þrátt fyrir dræma mætingu kom ýmislegt fróðlegt fram. Nokkrar tillögur fóru fyrir þing og voru allar samþykktar samhljóða. Það sem hæst ber að nefna er að meðlimum í aðalstjórn UÍA var fjölgað úr þremur í fimm. Sitjandi stjórn var endurkosin og inn í hana bættust Gunnar Gunnarsson frá Þristi og Bjarney Jónsdóttir frá Leikni. Þá var samþykkt að lækka félagsgjöld UÍA fyrir 18 ára og eldri úr 250 kr. á þáttakenda í 150 kr.
Tveir gestir heiðruðu þingið með nærveru sinni, þau Birgir Gunnlaugsson frá UMFÍ og Björg Blöndal frá ÍSÍ. Fluttu þau bæði ávarp og kynntu verkefni sinna félaga. Birgir veitti tveimur einstaklingum starfsmerki UMFÍ, þeim Benedikt Jóhannssyni frá Austra og Jónu Petru Magnúsdóttur frá Súlunni.
Þá voru kynnt tvö samstarfsverkefni sem UÍA tekur þátt í. Annars vegar samning við KHB og hins vegar samning við Alcoa. Bæði þessi verkefni fela í sér stuðning fyrirtækjanna við íþrótta- og æskulýðsstarf á Austurlandi og verða kynnt nánar síðar.

Sambandsþing UÍA

Þann 30.apríl n.k. verður árlegt sambandsþing UÍA haldið á Hótel Framtíð, Djúpavogi og hefst það kl. 11:00. Þingboð hefur verið sent út til félaganna og vonumst við til að sjá sem allra flesta svo að þingið verði sem öflugast. Ýmis fróðleg umræðuefni eru á dagskrá s.s. væntanlegur samningur við KHB og dagskrá sumarsins. Einnig viljum við vekja athygli á því að lottotekjur eru greiddar út eftir mætingu hvers félags þannig að það borgar sig að mæta!

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok