Góður árangur austfirsk frjálsíþróttafólks

Austfirsk frjálsíþróttafólk hefur staðið í ströngu að undanförnu enda innanhúss keppnistímabilið í fullum gangi. Nýyfirstaðin eru Stórmót ÍR og Meistaramót FRÍ 15-22 ára, árangur okkar fólks þar hefur vakið verðskuldaða athygli. Keppendur UÍA skipuðu sér  þar í fremstu röð og mokuðu inn verðlaunum, þrátt fyrir að aðstaða til innanhúsæfinga hér eystra komist ekki í hálfkvisti við þær aðstæður sem flestir helstu keppinautar þeirra æfa við.

 

Á Stórmóti ÍR sem fram fór fram 11.-12. febrúar í Laugardalshöll, þar sigraði Daði Þór Jóhannsson í hástökki pilta 16-17 ára en Daði sem er með lágvaxnari hástökkvurum landsins stökk hæð sína í loftið og fór yfir 1,69 cm, hann nældi einnig í silfur í þrístökki. 

Mikael Máni Freysson gerði það líka gott á Stórmótinu og sigraði í þrístökki pilta 18-19 ára. Steingrímur Örn Þorsteinsson keppti einnig og náði góðum bætingum í 60 m og 200 m hlaupum.

 Piltarnir héldu svo ótrauðir áfram sigurgöngu sinni skömmu síðar á Meistaramóti FRÍ 15-22 ára sem fram fór í Laugardalshöll um síðustu helgi. Þar landaði Mikael Máni Íslandsmeistaratitli í þrístökki í flokki 18-19 ára, tók silfur í langstökki og brons í hástökki. Daði nældi í brons í þrístökki. Ferðin á Meistaramótið var öll hin ævintýralegasta en ófærð hafði mikil áhrif á framgang ferðalagsins og var keppni í hástökki pilta 18-19 ára til að mynda langt komin þegar Mikael Máni komst loks til leiks.

Austurfrétt hefur gert afrekum þeirra félaga góð skil og hér má lesa um árangur þeirra á Stórmóti ÍR og hér um ævintýri þeirra á Meistaramóti FRÍ.

Drengirnir æfa báðir með frjálsíþróttadeild Hattar undir stjórn Lovísu Hreinsdóttur, en hún var að vonum stolt af sínum mönnum. ,,Það er í raun frábært að fylgjast með þeim og magnað að sjá að þeir standa jafnvígir keppendum úr mun stærri félögum. Árangur þeirra einkum í þrístökki vekur mikla eftirtekt annara þjálfara og keppenda, því við höfum enga innanhús gryfju til æfinga hér eystra, á meðan félagar þeirra syðra geta æft við kjöraðstæður allan veturinn."

Mikael Máni Freysson UMF Þristi og Daði Þór Jóhannsson Leikni á góðri stundu, myndina tók Lovísa Hreinsdóttir

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok