Minning: Stefán Þorleifsson

Við kveðjum nú Stefán Þorleifsson, íþróttafrumkvöðul og félagsmálafrömuð í Neskaupstað sem lést um miðjan þennan mánuð á 105. aldursári.


Stefán var máttarstólpi í íþrótta- og ungmennafélagsstarfi í Neskaupstað. Að loknu íþróttakennaranámi snéri hann heim á sínar æskuslóðir til að kenna og þjálfa íþróttir. En Stefán lét sér ekki nægja að kenna íþróttirnar, hann var líka eldhugi sem barðist fyrir bættum aðbúnaði. Sund hafði verið kennt svo að segja í pollum en fyrir hans tilstuðlan var byggð sundlaug í hjarta Neskaupstaðar sem í dag er kennd við Stefán. Á seinni árum var það svo golfið sem átti hug hans allan, hann mætti á golfvöllinn ef hægt var. En hann boðaði líka mikilvægi hreyfingarinnar. Þegar erlendir blaðamenn spurðu hann að leyndarmálinu bakvið langlífið benti hann á að hann hefði alltaf gert æfingar á morgnana og svo mætti hann í heita pottinn.

Stefán starfaði líka ötullega að félagsmálum íþróttahreyfingarinnar, bæði innan íþróttafélagsins Þróttar og Egils Rauða. Hann ávarpaði 100 ára afmælishóf beggja félaganna fyrir fáeinum árum og rifjaði þá upp gamlar sögur úr starfinu, nánast aftur til stofnfundanna! Fyrir störf sín fékk Stefán fjölda viðurkenninga. Hann var útnefndur heiðursfélagi UÍA árið 1989 og hlaut gullmerki UMFÍ árið 2013 en hann sat í stjórn UÍA á bernskuárum sambandsins.

Stefán var óþreytandi við að miðla af reynslu sinni og hvatti ávallt aðra til góða verka. Hann lagði sig líka fram um að mæta og taka þátt í því sem var í boði. Þannig er hann elstur allra til að hafa tekið þátt í Landsmóti UMFÍ 50+ en hann tók þátt í golfi á mótinu í Neskaupstað árið 2019.

Við minnumst Stefáns með hlýhug og þökk fyrir hans mikla framlag í þágu austfirsks íþróttastarfs á langri ævi. Fjölskyldu hans og vinum vottum við samúð okkar.


f.h. Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands
Gunnar Gunnarsson, formaður

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok