Boltafélag Norðfjarðar hampaði Launaflsbikarnum

Boltafélag Norðfjarðar (BN) er sigurvegari bikarkeppni UÍA og Launafls í knattspyrnu árið 2018. BN náði bikarnum eftir að hafa unnið Ungmennafélag Borgarfjarðar (UMFB) eftir vítaspyrnukeppni. Leikið var til úrslita á Fellavelli í gærkvöldi.


Borgfirðingar byrjuðu betur og það var Bjarki Berndsen sem skoraði fyrsta mark leiksins á 15. mínútu með skoti vinstra megin úr teignum. Borgfirðingar urðu reyndar fyrir áfalli snemma leiks þegar þeirra markahæsti maður, Sveinn Hugi Jökulsson, snéri sig og gat ekki leikið meir.

Norðfirðingar jöfnuðu á 39. mínútu eftir að vörn UMFB hafði opnast. Borgfirðingar komust hins vegar yfir fyrir hálfleik, í uppbótartíma fylgdi Birgir Ottesen eftir skoti sem hrökk út í teiginn af þverslánni með bakfallsspyrnu.

Fátt var um færi í seinni hálfleik en eftir sem á leið gerði BN sig líklegra. Það bar árangur, William Geir Þorsteinsson kom boltanum framhjá markverði UMFB eftir langa sendingu á 84. mínútu. Þeir skullu reyndar saman og haltraði William af velli í kjölfarið.

BN sóttu síðustu fimm mínúturnar og fékk skotfæri en skoraði ekki. Staðan var því 2-2 að loknum venjulegum leiktíma og farið beint í vítaspyrnukeppni.

Hvort lið skoraði úr sínum fyrstu tveimur spyrnum. Alexander Freyr Joensen varði hins vegar frábærlega þriðju spyrnu UMFB sem Rafn Heiðdal tók. BN náði í kjölfarið forskotinu og Ingi Steinn Freysteinsson tryggði sigurinn með að skora úr síðustu spyrnu keppninnar.

Úrslitakeppnin var BN gjöful en liðið endaði í fjórða sæti deildakeppninnar og UMFB í öðru. BN vann síðast keppnina árið 2012 og varð þar með bikarinn. Þar áður hafði liðið endað í öðru sæti fimm ár í röð.

Sveinn Hugi hjá UMFB var markahæsti maður keppninnar með 11 mörk.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok