Austfirsk ungmenni í Umræðupartýi UMFÍ

Fyrsta umræðupartý UMFÍ fór fram með pompi og prakt föstudaginn 3. febrúar síðastliðinn. Til partýsins mættu um 50 ungmenni á aldrinum 17 ára og eldri sem og um 30 stjórnendur og starfsmenn héraðssambanda og íþróttafélaga víðs vegar af landinu. UÍA átti fimm fulltrúa, sem tóku virkan þátt í umræðupartýinu.

Þrjú mismunandi umræðuefni voru rædd í boðinu. Það fyrsta var þátttaka í skipulagðri hreyfingu og íþróttum. Annað var fræðsla og forvarnir og það þriðja var hipp og kúl íþróttastarf.

 

„Þetta var mjög lærdómsríkt og skemmtilegt. Það var áhugavert að hitta og kynnast fullt af nýju fólki og heyra þeirra sýn á ungmennastarf og hvað er verið að gera hingað og þangað um landið.  Framkvæmdastjórar félaga, forvarnafulltrúar, stjórnarmeðlimir UMFÍ, og fulltrúar frá bæjum eða félögum sátu með okkur unga fólkinu og þessir aðilar voru mjög spenntir fyrir því að hlusta á hvað við unga fólkið höfðum að segja." segir Erla Gunnlaugsdóttir einn austfirsku þátttakendanna.

Margar áhugaverðar hugmyndir komu fram sem vert er fyrir ungmennafélagshreyfinguna að skoða. Til dæmis kom fram hugmynd um skiptiíþróttir þar sem hópar skiptast á að mæta á æfingar hvor hjá öðrum. Bjóða upp á fleiri hópa og eða æfingar þar sem lítil eða engin áhersla er á keppni – létta þarf pressuna um mætingaskyldu og það að keppa og setja meiri fókus á það félagslega, þaö er að taka þátt og hitta félaga. Einnig komu fram óskir um íþróttaklúbba, þar sem ungmenni gætu komið saman, farið í skipulagða leiki og fjölbreyttar íþróttir á léttum nótum, allt til þess að hafa gaman í stað þess að keppa.

Jafnframt kom fram hugmynd um að hafa fyrirmyndir sem væru nær ungmennunum sjálfum – einhvern sem væri til staðar í félaginu og nær þeim í aldri. Að auki kom fram að auka þurfi hlutfall ungmenna í stjórnum félaga og halda opna stjórnarfundi hjá félögum sem allir áhugasamir geta mætt og komið sínum skoðunum á framfæri. Mun fleiri áhugaverðir punktar komu fram. Unnið verður úr öllum hugmyndum á næstu dögum og þær teknar saman.

Ungmennaráð UMFÍ sá um alla framsetningu og utanumhald partýsins.

Viðburðurinn var styrktur af Evrópu unga fólksins og var þetta fyrsta umræðupartýið af fjórum sem haldin verða. Næsta partý fer fram í maí 2017.

Hér á myndinni má sjá fulltrúa UÍA þau; Jónas Braga Hallgrímsson, Anyu Hrund Shaddock, Erlu Gunnlaugsdóttur, Emmu Líf Jónsdóttur og Guðbjörgu Agnarsdóttur ásamt Gunnari Gunnarssyni formanni UÍA.

 

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok