Árangursríkt Sambandsþing á Vopnafirði

Sambandsþing UÍA fór fram á Vopnafirði síðastliðinn laugardag. Karlakór Vopnafjarðar sló tóninn í upphafi þings með kröftugum söng og lagði þannig línurnar fyrir afar gott þing sem einkenndist af virkri þátttöku og líflegum umræðum.

43 þingfulltrúar frá félögum víðsvegar að úr fjórðungnum mættu til þings og tóku þátt í gagnlegum og skemmtilegum umræðum um hin ýmsu málefni sambandsins. Nokkurra nýjunga gætti í þingstörfum en í stað hefðbundins nefndafyrirkomulags var umræðuvettvangur Heimskaffi (World Café) nýttur til að skapa hugarflæði og gefa þingfulltrúum enn frekari kost á að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri. Fimm umræðuborð voru í gangi þar sem rætt var um; Verkefni og störf UÍA, Þátttöku og sjálfboðaliða, Unglingalandsmót á Egilsstöðum 2017, Samskipti á landsvísu (t.d. ferðakostnað og tengsl við UMFÍ, ÍSÍ og sérsambönd) og Fjármál. Þingfulltrúum var skipt upp í hópa sem allir fóru í gegnum umræðuborðin fimm. Þar er mál manna að afar vel hafi tekist til og þessi aðferð hafi skapað gagnlegan, markvissan og skemmtilegan umræðugrundvöll, sem allir tóku virkan þátt í.  

Þing var að vanda nýtt til að heiðra dugnaðarforka innan hreyfingarinnar og þakka þeim sem sérstaka alúð og elju hafa lagt í störf á vegum hreyfingarinnar.
Gunnar Gunnarsson stjórnarmaður UMFÍ veitti Einari Birni Kristbergssyni, starfsmerki UMFÍ.:
Ferill Einars Björns í félagsmálum Einherja spannar á 4. áratug. Þegar sem leikmaður félagsins var hann kominn í stjórn, var formaður knattspyrnuráðs 1986-1988 er hann hélt utan í nám um eins árs skeið. Eftir það hefur Einar Björn helgað sig störfum í þágu Einherja, lengstum sem formaður og enn lengur sem gjaldkeri. Hávaðalaust hefur Einar Björn unnið sitt verk í þágu félags og samfélags síns, hefur í engu skipt hvert verkefnið hefur verið, hann er ávallt reiðubúinn. Einar Björn er einn þessara fágætu félaga sem grundvalla starf U.M.F.Í.
 
Hildur Bergsdóttir framkvæmdastýra UÍA veitti Starfsmerki UÍA, einstaklingum sem hafa sýnt mikinn dugnað og kraft í ungmenna- og íþróttastarfi á Vopnafirði. Þau hlutu þær:
Svava Birna Stefánsdóttir, Einherja:
Svava hefur komið að störfum Ungmennafélagsins Einherja allt frá árinu 1988. Stjórnaði m.a. leikjanámskeiðum árin 1988-2002. Þjálfaði frjálsar íþróttir árin 1989-1994 ásamt knattspyrnuþjálfun. Sat í stjórn félagsins um árabil og er einn stofnenda Fjaðranna árið 2010, blakdeildar Einherja.
 
Linda Björk Stefánsdóttir, Einherja:
Hóf ferilinn með því að aðstoða Svövu Birnu systur sína 1997 og kom inn í stjórn Einherja 2 árum síðar og sat í stjórn til 2015. Hefur komið að mýmörgum málum sem stjórnarmaður, ávallt reiðubúin til samstarfs. Er einn stofnenda Fjaðranna, sem komu á krakkablaki 2012 og hefur átt sinn þátt í þróun blaksins á Vopnafirði.
 
Bjarney Guðrún Jónsdóttir, Einherja:
Hóf þjálfun hjá Einherja 16 ára gömul, einkum frjálsar og sendi félagið hóp keppenda árvisst á Eiðahátíð um árabil. Hefur verið við þjálfun allar götur síðan, stýrt leikjanámskeiðum, fimleikum og knattspyrnuþjálfun. Einn stofnenda Fjaðranna og sat í stjórn Einherja hátt í 20 ára skeið og í stjórn UÍA 2005-2008.
 
Eva Dögg Jóhannsdóttir, glímukona hjá Ungmennafélaginu Val Reyðarfirði, var valin íþróttamaður Ú.Í.A. 2015, þriðja árið í röð.
Eva Dögg náði afar góðum árangri á árinu 2015, sigraði Íslandsglímuna og hlaut Freyjumenið fyrst austfirskra kvenna, og Rósina verðlaun fyrir fallegustu glímurnar. Eva Dögg varð einnig bikarmeistari í -65 og 2 sæti í opnum flokki Backholt í Skotlandi. Skoskur meistari og tvisvar í öðru sæti Backholt á fangbragðamóti í Frakklandi. Fyrsta sæti í -70 og önnur í opnum flokki landsliðs Íslands í glímu, back hold og gouren. Valin glímukona ársins 2015 af Glímusambandi íslands. Eva Dögg er fyrirmyndar íþróttakona jafnt innan vallar sem utan. Hún er metnaðarfull og viljasterk, fylgin sér og hefur mikið og gott keppnisskap. Hún er lipur og sterk og í stöðugri framför. Eva er óeigingjörn og ætíð tilbúin að hjálpa til við hvers kyns verkefni sem koma upp og varða glímuna og félagsstarf hjá Val. Eva Dögg situr í stjórn Glímusambands Íslands. Hún hefur reynst yngri glímuiðkendum vel og er liðtæk við að segja þeim til, hvetja áfram auk þess að starfa við dómgæslu og hin ýmsu störf á glímumótum.
 
Á þingi gengu úr stjórn þær Pálína Margeirsdóttir og úr varastjórn Sóley Dögg Birgisdóttir. Þökkum við þeim kærlega fyrir vel unnin störf. Nýtt fólk bjóðum við velkomið til leiks en Auður Ágústsdóttir og Rebekka Karlsdóttir tóku sæti í varastjórn UÍA.
Stjórn UÍA skipa nú Gunnar Gunnarsson, formaður UMF Þristi, Elsa Guðný Björgvinsdóttir, UMF Ásnum, Reynir Zoega, Brettafélagi Fjarðabyggðar, Auður Vala Gunnarsdóttir, Hetti og Jósef Auðunn Friðriksson, UMF Súlunni.
Í varastjórn sitja Hlöðver Hlöðversson, Þrótti, Auður Ágústsdóttir, Neista og Rebekka Karlsdóttir, Hetti.
 
Sjósportklúbbur Austurlands var tekið fagnandi inn sem nýju aðildarfélagi og spennandi verður að sjá hvernig starf félagsins vex og dafnar.
 
Að vanda hlutu viðurkenningar þeir sem þóttu sýna skörungskap hvoru tveggja í ræðustól og við matarborð. Árni Ólason hlaut sæmdartitilinn Kjaftaskur þings og Bjarki Sigurðsson var valin Mathákur þings en í þeim flokki var mjótt á mununum enda veitingarnar ekki af verri endanum og girnilegar eftir því.
 
UMF Einherji stóð að framkvæmd þings ásamt UÍA og eru þeim færðar innilegar þakkir fyrir höfðinglegar mótttökur og skemmtilega samvinnu.

Staðsetning og opnunartími

Skrifstofa UÍA er staðsett að Tjarnarási 6 á Egilsstöðum gegnt Flytjanda.

Almennur opnunartími skrifstofu er frá kl. 9:00-15:00 alla virka daga.

Framkvæmdastjóri er Gunnar Gunnarsson.
Netfang: uia@uia.is og sími 471-1353.

Kennitala UÍA er: 660269-4369.

Landssambönd

ÍSÍ
UMFÍ

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.
Ok